Jafnréttisstefna

Samkvæmt jafnréttisáætlun Kópavogsbæjar sem byggir á lögum um jafnan rétt kvenna og karla eiga allar stofnanir Kópavogs með fleiri en 25 starfsmenn að setja sér jafnréttisáætlanir.

Markmið með gerð jafnréttisáætlunar Snælandsskóla er að stuðla að jafnri stöðu karla og kvenna sem við skólann starfa og drengja og stúlkna sem við skólann nema.  Í sýn skólans segir að viska, virðing, vinsemd og víðsýni skulu höfð að leiðarljósi í skólastarfinu öllu.  Í anda þessa er fulls jafnréttis milli kynja gætt í Snælandsskóla.

Nemendur eru hvattir til að rækta sérkenni sín og hvatt er til jákvæðra samskipta milli kynja.  Stúlkum og drengjum og konum og körlum eru sköpuð jöfn tækifæri til þátttöku og áhrifa í skólasamfélaginu og bæði kynin hvött jafnt til þess að taka þátt og hafa áhrif.

Jafnréttissjónarmið eru samþætt stefnumótunarvinnu skólans og stuðla þannig að því að jafnréttissjónarmið eru eðlilegur þáttur í skólastarfinu, hvað varðar starfsfólk, nemendur og í samstarfi við foreldra.  Tekið er mið af sjónarmiðum beggja kynja og áhrif ákvarðana skoðuð með tilliti til þeirra.  Kynbundin mismunun er óheimil, í hvaða formi sem hún birtist.

Til að jafnréttisáætlun skili árangri er nauðsynlegt að hafa skýra mælikvarða í tengslum við þau markmið sem koma fram í áætluninni. Þau matstæki sem lögð eru til grundvallar eru starfsmannasamtöl, tölfræðilegar upplýsingar og viðhorfskannanir meðal nemenda, starfsmanna og forráðamanna.

Æskilegt er að fram fari faglegt og reglubundið mat á áhrifum jafnréttisáætlunar og jafnréttisstarfs í skólanum. Niðurstöður matsins séu kynntar reglulega fyrir nemendum, starfsfólki og forráðamönnum.

Jafnréttisstefna Snælandsskóla snýr í fyrsta lagi að starfsfólki, í öðru lagi að nemendum og í þriðja lagi að samstarfi við foreldra.  Jafnréttissjónarmið eru höfð að leiðarljósi:

  • í starfsmannahaldi, aðbúnaði, ráðningum og endurmenntun starfsfólks. 
  • í kennslu, námsframboði og námsefni nemenda.
  • í öllum samskiptum og í samvinnu við heimilin.

Hér má sjá jafnréttisáætlunina  í heild sinni.