Sjálfsmat

Matsáætlun 2020-2024

 

Sjálfsmat í Snælandsskóla byggir á þátttöku skólans í Skólavoginni, Olweusarkönnun sem lögð er fyrir alla nemendur frá 4. – 10. bekk ár hvert í nóvember, ásamt svo einstökum minni könnunum og starfsmannasamtölum sem lagðar eru fyrir á hverju ári.

Kannanir Skólavogarinnar eru þríþættar og er meginþáttur þeirra nemendakönnun sem lögð er fyrir alla nemendur í 6. – 10. bekk á hverju skólaári. Þá er foreldrakönnun lögð fyrir þriðja hvert ár og starfsmannakönnun einnig þriðja hvert ár. Við skólann starfar innramatsteymi sem fylgist með stöðunni, kynnir niðurstöður kannana og leitar lausna til úrbóta.

Innra mat Snælandsskóla skólaárið 2019 – 2020 felst í:

· Gerð langtímaáætlunar um umbætur og innra mat samkvæmt niðurstöðu ytra mats.

· Þátttöku allra nemenda í 6. – 10. bekk í könnun Skólapúlsins.

· Starfsmannakönnun í Skólavoginni ( óljóst með fyrirlögn í vetur eða næsta vetur).

· Þátttöku allra nemenda í 4. – 10. bekk í eineltiskönnun sem framkvæmd er árlega í nóvember skv. Olweusaráætluninni.

· Könnun öryggisnefndar.

· Auk þessa eru lagðar fyrir minni kannanir svo sem tengslakannanir ef þörf þykir.

Niðurstöður nemendakönnunar Skólapúlsins 2018 – 2019

Nemendakönnun Skólapúlsins var lögð fyrir 191 nemanda í 6. – 10. bekk. Almennt virðist nemendum líða vel í skólanum og er marktækur munur á mælingu skólans og meðaltals landsins alls á nokkrum mælikvörðum. Sérstaka ánægju vekja ánægja nemenda af lestri, sjálfsánægja og að tíðni eineltis sé marktækt minni en landsmeðaltal.

Niðurstöður foreldrakönnunar Skólavogarinnar

Foreldrakönnun Skólavogarinnar var lögð fyrir í febrúar 2019. Afar erfiðlega gekk að fá foreldra í úrtaki til þess að svara könnuninni og var alveg á mörkunum að það tækist að fá nægilega mörg svör til þess að skólinn fengi birta niðurstöðu. Það voru 77 foreldrar sem tóku þátt í könnuninni en þeir svöruðu ekki allir öllum spurningunum eins og sjá má á fjöldatölum í liðnum N. Þetta er áberandi varðandi spurningar um einelti þar sem einungis 9 telja sig hafa reynslu af því og einungis 2-4 foreldrar svara spurningunum. Áberandi er misræmi á milli ánægju nemenda með skólann og viðhorfa foreldra. Hér er stiklað á þeim atriðum sem skera sig úr í niðurstöðunum.

Þegar undirþættir spurningarinnar um stjórnun skólans eru skoðaðir kemur í ljós að ánægja foreldra er mest með stjórnun skólans á yngsta stigi en minnst á unglingastigi.

Við skoðun á undirþáttum á notkun nemenda á frístunda- / tómstundaþjónustu kemur í ljós að nemendur á yngstastigi sem nýta Frístundaþjónustu eru mun fleiri en almennt gerist á landsvísu en nemendur á mið- og unglingastigi sem nýta félagsmiðstöð eru mun færri en landsmeðaltal.

Varðandi áhrif foreldra á ákvarðanir varðandi nemendur telja foreldrar nemenda í unglingadeild sig hafa minnst áhrif. Sama má segja um ánægju með heimasíðu og upplýsingar um stefnu skólans og námsskrá eru bestar á yngsta stigi en minnstar á mið- og unglingastigi.

Væntingar foreldra um háskólanám nemenda Snælandsskóla eru eins og áður mun meiri en almennt gerist á landsvísu.

Umbótaáætlun 2018 – 2021

Áætlunin tekur mið af niðurstöðum ytra mats Menntamálastofnunar sem framkvæmt var á vordögum 2018 í skólanum og niðurstöðum úr skýrslum stýrihópa skólans fyrir skólaárið 2017 – 2018. Umbótaáætlun er sett fram til þriggja skólaára í senn.

Helstu árhersluþættir:

Skólaárið 2019 – 2020 verður hafist handa við innleiðingu á breyttum kennsluháttum í anda 21. aldar og aðlögun stundaskrár að auknu vali nemenda í unglingadeild. Stuðst verður við nýja stefnumótun og unnið að breyttum kennsluháttum og markvissri teymiskennslu. Markmið þessara breytinga er aukin áhersla á kennsluhætti þar sem reynir á gagnrýna hugsun, þátttöku og samstarf. Auk þess sem fjölbreytni í skilum og námsaðlögun verði skýrari. Lögð er áhersla á gerð langtímaáætlunar um innra mat og umbætur.

Skólaárið 2020 – 2021 verður umbótaáætlun uppfærð m.t.t. hvernig til hefur tekist og haldið áfram þar sem frá var horfið frá fyrra ári með innleiðingu á breyttum kennsluháttum.