Skólasálfræðingur

Skólasálfræðingur Snælandsskóla er Elsa Kristjánsdóttir

Netfang: elsak@kopavogur.is

 

Sálfræðingar skólaskrifstofunnar sinna greiningaráðgjöf í málum sem skólinn vísar til þeirra.
Verksvið skólasálfræðings er mjög vítt, en í stuttu máli má segja að hann sinni ráðgjöf við nemendur, foreldra og kennara.

Sálfræðingur athugar einnig einstaka nemendur eftir tilvísun kennara. Skilyrði fyrir þannig afskiptum sálfræðings af einstökum nemendum er að samþykki forráðamanna liggi fyrir. Með slíkt er farið sem trúnaðarmál, en það á að sjálfsögðu einnig við um önnur afskipti af nemendum. Foreldrar geta einnig snúið sér beint til sálfræðings varðandi vandamál sem upp koma heima, þó þau tengist ekki skóla.

 

Ein af aðgerðum Kópavogsbæjar við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er að veita unglingum ráðgjöf hvað varðar heilsufar í trúnaði. Umboðsmaður barna og Ungmennaráð Kópavogsbæjar hafa einnig bent á mikilvægi þess að börn hafi gott aðgengi að sálfræðiþjónustu.Til að bregðast við fá nemendur í 9. og  10. bekk í grunnskólum Kópavogs fræðslu um geðrækt hjá sálfræðingum og þeim boðið upp á ráðgjafarviðtal hjá skólasálfræðingi án aðkomu foreldra.

Markmið ráðgjafarviðtala er að nemendur fái tækifæri til að ræða við sálfræðing með skömmum fyrirvara á auðveldan hátt. Í viðtölum fá sálfræðingar upplýsingar um vanda nemenda, veita ráðgjöf og leita lausna í samvinnu við nemendur.

Sálfræðingar eiga að gæta trúnaðar við nemendur en leitast eftir samvinnu við foreldra og aðra sem tengjast nemanda með samþykki nemanda nema að sérstök ástæða sé til annars. Ef sálfræðingur telur þörf á frekari þjónustu eftir ráðgjafarviðtöl s.s. nánari greiningu eða meðferð, þarf hann að fá samþykki nemanda til að ræða við foreldra og skóla sem sækja síðan um skólaþjónustu á hefðbundinn hátt.

Sálfræðingar bera einnig sérstaka tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum
og mikilvægt að þeir upplýsi nemendur sem koma í viðtöl til þeirra um það.

Vandamál sem koma til kasta sálfræðings eru mjög margvísleg. Öll eru þau þannig að mikilvægt er að tekið sé á þeim í tíma. Sumum foreldrum vex í augum að barni þeirra sé vísað til sálfræðings. Það er því rétt að benda foreldrum á að við skóla starfa ýmsir sérfræðingar aðrir en sálfræðingar. Má þar nefna námsráðgjafa, hjúkrunarfræðing, talkennara og sérkennara. Hægt er að ná sambandi við sálfræðing með milligöngu stjórnenda skólans.