Saga skólans

Snælandsskóli

Snælandsskóli var stofnaður 1974. Fyrstu árin var hann starfræktur í lausum kennslustofum. Smám saman var síðan núverandi skólahúsnæði byggt og á skólinn að heita fullbyggður.

Í upphafi var starfað samkvæmt kenningum um opinn skóla. Má sjá það á A- og C- álmum  sem eru elstu hlutar skólans, en þar er möguleiki á að mynda opin svæði. Skólinn þróaðist smám saman í það sem kallað var opið, samvirkt og sveigjanlegt kerfi. Eftir stóra kennaraverkfallið 1984 þróaðist starfið í átt að því sem kallað er hefðbundið skólastarf. Á síðustu misserum er unnið að þróun skólastarfs í átt að einstaklingsmiðuðu námi.
Frá upphafi hefur verið margs konar þróunarstarf í gangi. Má þar nefna blöndun árganga. Fyrstu 10 – 12 árin var mikil áhersla lögð á samvinnu á unglingastigi þá einkum í formi þemaverkefna. Áhersla hefur verið lögð á teymisvinnu kennara. Reynt hefur verið að halda í ýmislegt úr vinnubrögðunum sem þróuðust á fyrstu árum skólans. Má þar nefna vikuáætlanir og vinnutíma, val o.fl.

Mikil áhersla hefur verið lögð á góða sérkennslu og má segja að þar sé stöðugt þróunarstarf í gangi.
Foreldrafélag var stofnað við skólann 1977 og hefur það ætíð verið öllu skólastarfinu til styrktar.

 

Snælandsskóli í 30 ár (1974-2004)

1974

– Snælandsskóli tekur til starfa þann 1. september og var 7 og 8 ára nemendum kennt í einni kennslustofu í Digranesskóla. Þann 28. október fær skólinn eigin húsnæði og eru það þrjár kennslustofur og kennarastofa (síðar nefndir „skúrarnir“) og kennsla 6 ára nemenda hefst þá. Nemendur eru 113 á aldrinum 6-8 ára og er skólinn tvísetinn, þ.e. um helmingi nemenda er kennt fyrir hádegi og hinum helmingnum eftir hádegi. Umhverfi skólans er órækt og leiktæki engin. Við skólann starfa í upphafi þrír kennarar (í 2½ stöðu) og skólastjóri, Dónald Jóhannesson, auk annars starfsfólks. Skólinn átti að hafa að leiðarljósi „opið, samvirkt og sveigjanlegt skólastarf“. Helsta ástæðan fyrir stofnun skólans er uppbygging í landi nýbýlisins Snælands í Fossvogsdal í Kópavogi í kjölfar eldgoss í Heimaey, Vestmannaeyjum, árið 1973 en viðlagasjóðshús fyrir brottflutta Eyjamenn eru reist í nágrenni skólans í kjölfar gossins og standa þar enn (2004).

1975 – Í lok fyrsta skólaárs er skemmtun í Félagsheimili Kópavogs þar sem nemendur skólans sýna skemmtiatriði. Þessi skemmtun þróast síðan í vordaga í skólanum sem haldnir eru annað hvert ár á móti vorsýningu. Allir nemendur fóru saman í dagsferð um vorið í Lækjarbotna og gert var árlega í nokkur næstu ár eða þar til fjöldinn var of mikill og hver árangar fór í eigin vorferð.

1976 – Kór Snælandsskóla er stofnaður og fyrsti stjórnandi er Guðni Þ. Guðmundsson. Á fyrstu árum skólans hefjast opnar vikur með blöndun árganga í kennslu. Skólastofum er skipt upp í vinnusvæði, t.d. íslenskusvæði, stærðfræðisvæði o.s.frv., þar sem nemendum er blandað milli árganga í nám við hæfi.

1977 – Foreldrafélag skólans er stofnað 1. mars. Snælandsskóli verður skákmeistari skólanna í Kópavogi en öflugt skákstarf var undir forystu Sverris Kristinssonar kennara.

1978 – Fyrsti áfangi skólans, A-álma, er tekinn í notkun og er kjallarinn innréttaður til kennslu í leikfimi. Arkitektar eru Sigurður Harðarson og Magnús Skúlason. Nýbygging skólans dróst úr hömlu, eða fjögur ár frá stofnun hans, sökum seinagangs á fjárveitingum til byggingarinnar frá ríkinu. Nemendur eru 350 á aldrinum 6 – 12 ára. Yfirkennari er ráðinn, Karl Jeppesen, sem gegnir stöðunni til áramóta. Hann fer þá í námsleyfi og tekur Reynir Guðsteinsson við starfi hans. Kór skólans syngur með Hauki Mortens lagið Nú er Gyða á gulum kjól á samnefndri plötu Hauks. Snælandsskóli verður aftur skákmeistari skólanna í Kópavogi. 12 ára nemendur skólans fóru í þriggja daga skólaferðalag að vori til Vestmannaeyja í fyrsta skipti en alls var farið í 11 ár áður en ferðirnar lögðust af og skólabúðir á Reykjum tóku við. Tölvuvæðing skólans hófst með notkun BBC-tölva sem foreldrafélagið gaf skólanum.

1979 – Samkennsla 7-8 ára nemenda hefst. Skólablaðið Snær er gefið út í fyrsta skipti og kom út í nokkur ár. Það var unnið í sameiningu af 12 ára nemendum og kennara fyrir daga tölvutækninnar og selt í hús. Foreldraleikfimi hefst á vegum Foreldrafélagsins undir stjórn Rósu Þórisdóttur íþróttakennara í upphafi. Fjórir 12 ára nemendur skólans setja Íslandsmet í maraþonskák og afla um leið fjár til bókasafns skólans með áheitum. Þá sjá 12 ára nemendur skólans um þátt í Ríkisútvarpinu laugardaginn 17. febrúar. Ensk skólastjórahjón, Manny og Roy  Lewis, halda námskeið fyrir kennara skólans um opið skólastarf sem átti eftir að móta skólastarfið í Snælandsskóla næstu ár.

1980 – Samkennsla 8-9 ára nemenda hefst. Íþróttamót unglinganna hefst.

1981 – B-álma skólans er tekin í notkun. Kennarar skólans hittast reglulega í leshring og ræða uppeldis- og kennslufræðikenningar sem lesnar voru milli funda. Kennarahandbók Snælandsskóla kemur út í fyrsta skipti eftir vetrarlanga undirbúningsvinnu en í henni eru ýmsar upplýsingar um skólastarfið og fyrsti vísir að stefnu skólans sem hefur verið í stöðugri þróun síðan.

1982 – Fyrstu nemendur Snælandsskóla útskrifast með grunnskólapróf og er skólinn þá fyrsti og eini heildstæði grunnskólinn í Kópavogi.

1983 – Nemendur í skólanum að hausti eru 538. Þetta var síðasta árið sem samkennsla var í kennslu 7-9 ára barna í skólanum.

1984 – C-álma er tekin í notkun í nóvember en þrátt fyrir það eru áfram mikil þrengsli í skólanum. Reynir Guðsteinsson verður skólastjóri og Birna Sigurjónsdóttir yfirkennari. Grímuball allra nemenda byrjar á sprengidag. Samkennsla árganga hættir þar sem ekki fékkst styrkur til þróunar þess hjá menntamálaráðuneytinu og verkfall kennara varð til þess að margir kennaranna sem höfðu tekið þátt í þróunarstarfinu hættu störfum við skólann.

1985 – Bókasafnið er flutt úr lausum kennslustofum (skúrum) í ris A-álmu og hluti í ris C-álmu.

1986 – Opinn skákdagur er 9. janúar. Mikil fjölgun íbúa er í hverfinu og nemendafjöldi nær hámarki eða 640 nemendur í um 30 bekkjardeildum. Skólinn er í fyrsta skipti þrísetinn. Nýr íþróttasalur er tekinn í notkun í október. Námsver er sett á laggirnar en það er athvarf til að vinna heimanám eftir að skóla lýkur og er því forveri Dægradvalar.

1987 – 23 kennarar skólans hefja þátttöku í starfsleikninámi sem stendur í tvö skólaár. Íþróttamót miðstigs byrjar.

1988 – D-álman er tekin í notkun. Hluti af myndskreytingu Magnúsar Pálssonar myndlistarmanns á ævintýrinu um Lítil, Trítil og fuglana er komið fyrir utan á skólann.  Bókasafnið flytur í D-álmu (árið 2004: matsalur nemenda) og fyrir framan það verður setu- og borðstofa eldri nemenda. Kennarar fá vinnuaðstöðu í risi A-álmu. Nemendur eru 609 og kennarar 43. Námsvísar fyrir alla árganga koma út í fyrsta skipti.

1989 – Ráðið er í fyrsta skipti í stöður árganga- og fagstjóra við skólann. Árganga- og fagstjórn er undanfari núverandi deildarstjóraskipulags. 12 ára nemendur fara í fyrsta skipti í skólabúðir á Reykjum sem þeir hafa gert árlega síðan en skólaferðalög þeirra til Vestmannaeyja hætta. Kór Snælandsskóla gefur út plötuna Barnadansar.

1990 – Hafin er vinna að gerð skólanámskrár Snælandsskóla og er nú gefin út, að hluta, árlega sem Námsvísar árganga sem dreift er til foreldra í námskynningum að hausti. 6 ára börn verða skólaskyld og 10. bekkur verður til sem elsti árgangur skólans en hét áður 9. bekkur. Vala Björnsdóttir, kennari, leysir Birnu yfirkennara af þar sem hún er í launalausu leyfi. Nemendur skólans eru 516 að hausti. Kvöldskóli Kópavogs hefur starfsemi sína í húsakynnum Snælandsskóla.

1991 – Foreldradagur er 15. mars en þann dag önnuðust foreldrar börn sín í skólanum meðan kennarar skólans kynntu sér starfsemi grunnskóla á Akranesi. Námsráðgjafi tekur til starfa við skólann í hlutastarfi og gegnir Valborg Baldvinsdóttir starfinu. Birna og Valgerður gegna saman starfi yfirkennara.

1992 – Á þemadögum settu nemendur upp útvarpsstöð sem er árlegur viðburður á þemadögum í nokkur ár. Lestrarvakning á sér stað og allir nemendur skólans taka þátt í lestrarviku 2.-6. nóvember. Þróunarverkefnið Lestrarnámskeið fyrir unglinga hefst og stendur í eitt skólaár undir stjórn Valgerðar Björnsdóttur, í samvinnu við Kópavogsskóla, og miðar að aukinni lestrarfærni meðal unglinga skólans.

1993 – Nemendur skólans eru 518 í 24 bekkjum.

1994 – Haldin er vorsýning í tilefni 50 ára lýðveldis á Íslandi. Skólinn verður í fyrsta skipti einsetinn frá hausti og verður fyrsti skólinn í þéttbýli á Íslandi til þess. Skóladagurinn lengdur hjá nemendum með sérstöku fjárframlagi bæjarins, 30 vikustundir hjá 1.-3. bekk og 35 stundir hjá 4.-10. bekk en þeir geta í fyrsta skipti keypt máltíð í skólanum í hádeginu. Nemendur eru um 500 í 22 bekkjardeildum. 20 ára afmælishátíð skólans er haldin 25.-27. október og afmælisblað er gefið út. Merki Snælandsskóla er kynnt en það er hannað af Björney Ingu Björnsdóttur nemanda við skólann. Skúrarnir fara en sjö almennar kennslustofur og náttúrufræðistofa bætast við í nýjustu álmu skólans, E-álmu. Starfsfólk skólans fer í náms- og kynnisferð til Amsterdam í Hollandi.

1995 – Nemendum fækkar en bekkjum fjölgar, eru nú 480 í 23 bekkjardeildum. Birna aðstoðarskólastjóri gegnir starfi skólastjóra í námsleyfi Reynis og Guðbjörg Emilsdóttir, sérkennari við skólann, er yfirkennari. Dægradvöl, gæsla nemenda í 1. – 4. bekk eftir kennslu, hefur starfsemi. Birna yfirkennari gegnir starfi skólastjóra í námsleyfi Reynis og Guðbjörg Emilsdóttir, sérkennari við skólann, er yfirkennari. Átak í tölvukaupum og samstarf við Kvöldskóla Kópavogs um kaup á tölvum fyrir kennslu.

1996 – IGLÓ, félagsmiðstöð unglinganna í Snælandsskóla, tekur til starfa í kjallara skólans 3. október. Igló kemur úr tungumáli inútíta á Grænlandi og merkir „snjóhús“.Rekstur Snælandsskóla færist algjörlega yfir á Kópavogsbæ eins og aðrir grunnskólar í sveitarfélaginu og starfsemi grunnskóla á landinu flyst frá ríki til sveitarfélaga. Anna Mjöll Sigurðardóttir og Valborg A. Baldvinsdóttir hefja þróunarverkefni í dönskukennslu sem stendur í eitt skólaár. Birna yfirkennari er í námsleyfi og Guðbjörg verður áfram yfirkennari.

1997 – 460 nemendur eru í skólanum í 21 bekkjardeild. Bekkur 9.1 fer í norrænar skólabúðir í Þrándheimi vikuna 13. – 20. september.

1998 – Þriggja anna kerfi tekið upp sem felur í sér að námsmat og foreldraviðtöl eru þrisvar á skólaári í stað tvisvar áður. Samstarf við franskan skóla, Collège Massenet Fourneyron, hefst þar sem nemendur vinna saman verkefni í náttúrufræði og umhverfismennt auk þess að skiptast á heimsóknum. Franskir nemendur koma í námsferð til Íslands um sumarið. Kennararnir sem annast samskiptin við Collège Massenet Fourneyron eru Anna Mjöll Sigurðardóttir og Margrét Júlía Rafnsdóttir. Kór Snælandsskóla syngur tvö lög á geisladiskinum Kom englalið sem gefinn er út til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar en kostaður af Thorarensen-lyf. Þróunarverkefnið Lestur og upplýsingatækni hefst, og stendur yfir skólaárið, sem miðar að því að auka lestarfærni nemenda í 8. og 9. bekkjum með aðstoð tölvutækninnar. Það er í umsjá Guðbjargar Emilsdóttur, Ástu Björnsdóttur og Gunnars B. Melsteð. Starfsfólk skólans fer í náms- og kynnisferð til Halifax í Kanada og Kór Snælandsskóla fer í söngferðalag til Noregs. Fyrsti franski hópurinn á Íslandi árið 1998 ásamt samstarfsnemendum, Önnu Mjöll og Margréti kennurum, úr Snælandsskóla.

1999 – 6. bekkir setja í fyrsta skipti upp söngleik, Grease undir stjórn Lóu Bjarkar Jóelsdóttur tónmenntakennara, eins og enn er gert á hverju ári. Snælandsskóli heldur upp á 25 ára afmæli sitt með skrúðgöngu um hverfið og risastórri afmælistertu. Í tilefni afmælisins er einnig gefið út afmælisblað sem foreldrafélag kórsins annast. Kór Snælandsskóla gefur út geisladiskinn Fagur er Fossvogsdalur sem inniheldur m.a. samnefnt lag, skólasöng Snælandskóla, eftir Sigurbjörn Einarsson biskup við lag Mistar Þorkelsdóttur barnabarns hans. Nemendur í 10. bekk skólans fara í nemendaskiptaferð til Frakklands og gista heima hjá nemendum í franska samstarfsskólanum. Þróunarverkefnið Lestur og ritun í yngri deildum hefst og stendur í eitt skólaár en þar voru lestarhugmyndir sem kennarar kynntust í Kanadaferð árið áður nýttar og þróaðar við kennslu yngri nemenda skólans. Verkefnið er í umsjá Guðbjargar Emilsdóttur sérkennara og Regínu W. Gunnarsdóttur kennara. Nemendur í 5. bekkjum hefja þátttöku í Comeniusverkefni með tveimur evrópskum skólum, frá Englandi og Ítalíu, sem stendur í eitt skólaár. Verkefnið heitir Landafræði út um gluggann (Geography through the window) og er undir stjórn Guðrúnar Pétursdóttur, kennara. Birna aðstoðarskólastjóri fer í leyfi og Guðbjörg Emilsdóttir, sérkennari, gegnir starfi hennar á meðan. Snælandsskóli gerir tilraunir með sérstakt deildarstjóraskipulag í skólanum með samningi við Skólaskrifstofu Kópavogs í eitt ár. Deildarstjórarnir eru kennarar við skólann, þau Anna Mjöll Sigurðardóttir, Guðrún Pétursdóttir og Haukur Svavarsson.

2000 – Skólinn hefur þátttöku í þróunarverkefninu Heilsuefling í skólum, Heilsuskólinn, sem er þriggja ára verkefni en þar er skólinn með sitt eigið sérverkefni, Betri skóli – bætt líðan, sem stendur frá 1999-2002. Hópur foreldra stofnar skokkhóp í október sem hleypur alla laugardaga undir stjórn Ásdísar Ólafsdóttur íþróttakennara. Mæting er enn haustið 2004 við íþróttahús Snælandsskóla hvern laugardag kl. 10 allan ársins hring. Kór Snælandsskóla fer í söngferðalag til Ameríku. Hanna Hjartardóttir verður skólastjóri og nýr aðstoðarskólastjóri tekur til starfa, Guðrún Pétursdóttir, sem jafnframt verður hluti nýs deildarstjóraskipulags við grunnskóla Kópavogs, og er jafnframt deildarstjóri yngsta stigs (6-9 ára nemendur). Deildarstjóri miðstigs verður Anna Mjöll Sigurðardóttir (10-12 ára nemendur) og deildarstjóri unglingastigs (13-15 ára nemendur) verður Haukur Svavarsson, bæði kennarar við skólann.

2001 – Umhverfisáætlun Snælandsskóla er samþykkt og margs konar þróun hefst á verkefnum tengdum umhverfismálum í skólanum sem enn standa yfir árið 2004. Skólinn setur upp eigin heimasíðu sem að mestu er unnin og haldið við af Guðrúnu Pétursdóttur aðstoðarskólastjóra. Starf námsráðgjafa verður fullt starf og gegnir Valborg Baldvinsdóttir starfinu áfram. Í annað skipti fer hópur unglinga skólans að heimsækja samstarfsskólann í Frakklandi. Haustdagar hefjast í skólastarfi en fyrstu skóladagar haustsins eru þá nýttir til útiveru, íþróttakennslu og umhverfisverndar. Þróunarverkefnið Tónmennt – lífsleikni hefst og stendur í eitt skólaár þar sem tónmenntakennarar skólans standa fyrir skapandi starfi meðal 1.-7. bekkinga og Kórs Snælandsskóla. Kórinn hefur nóg að gera undir stjórn Heiðrúnar Hákonardóttur er hann gefur út geisladiskinn Jólanótt, syngur í Jólastundinni í Sjónvarpinu, gefur út jólakort og fer á kóramót í Svíþjóð. Endurmenntunaráætlun skólans er gerð í fyrsta skipti þá til eins árs en eftir það alltaf til tveggja ára í senn.

2002 – Bekkjaramma, verkefni á yngsta stigi þar sem amma kemur í skólann til að segja nemendum sögur, hefst og stendur ennþá. Bekkjaramma er Sigríður Jóhannsdóttir, kennari á eftirlaunum. Nemendur á miðstigi fá eigið nemendaráð og heldur það reglulega fundi. Nemendur skólans skipta á milli sín gróðurreitum á skólalóðinni til að hirða um þá og gróðursetja fleiri plöntur. Gefin er út samþykkt áfallaáætlun skólans. Vordagar skólans hefjast með útiveru og skólastarfi þar sem lögð er áhersla á samfélagsgreinar og náttúrufræði. Á yngsta stigi hefst þróunarverkefni sem nefnist Námsferilsmöppur nemenda en í því felst að nemendur safna í möppu sýnishornum af skólaverkefnum (ljóð, myndir, ritgerðir o.fl.) frá allri skólagöngu sinni og fylgir námsferilsmappan þeim upp bekki skólans fram að útskrift er hún verður þeirra eign. Starfsfólk skólans fer í náms- og kynnisferð til Boston í Bandaríkjunum og kór skólans ferð í söngferðalag til Þýskalands.

2003 – F-álma er tekin í notkun um haustið. Í henni eru tvær almennar kennslustofur, myndmenntarstofa, Dægradvöl, skólabókasafn, kaffistofa starfsfólks og vinnuaðstaða kennara. Eldri kennarastofu og mötuneyti kennara er breytt í kennslustofu og skrifstofur fyrir deildarstjóra. Þar sem bókasafnið var verður til matsalur nemenda þar sem þeim er boðið upp á heita máltíð í hádeginu á skóladögum. Skólinn verður stýriskóli, einn af um 20 skólum á Íslandi, í Olweusaráætlun menntamálaráðuneytis gegn einelti. Bekkjaramman, Sigríður Jóhannsdóttir, heimsækir nú bekki á miðstigi. Miðstigið heldur árshátíð sína í fyrsta skipti þar sem allir bekkir leggja til skemmtiatriði og borða pistu saman. Kennarar á yngsta stigi hefja vinnu við þróunarverkefni með nemendum sínum þar sem ný einkunnarorð skólans, viska, virðing, víðsýni og vinsemd, gegna lykilhlutverki. Afraksturinn var m.a. hengur upp á veggi skólans í listaverkum ýmiss konar. Kennarar á yngsta stigi fá styrk til að vinna að þróunarverkefni um kennslu með Davis námstækni. Kór Snælandsskóla fer í söngferðalag til Noregs. Formleg sérdeild er stofnuð við skólann og er ætluð unglingum í Kópavogi sem lifa við skerta námsgetu. Deildarstjóri sérdeildarinnar er Kristrún Hjaltadóttir en deildin hefur starfað óformlega og verið í þróun í nokkur ár undir stjórn Kristínar Bjarkar Guðmundsdóttur sérkennara og Guðbjargar Emilsdóttur, sérkennara og fagstjóra í sérkennslu. Þriðji hópur nemenda á unglingastigi skólans heimsækir nemendur við samstarfsskólann í Frakklandi. Nýr deildarstjóri kemur til starfa á unglingastigi, Helgi Helgason (Basli).

2004 – Grænfáninn er dreginn að húni á vorsýningu en við það hefur skólinn hlotið viðurkenningu sem Grænfánaskóli í umhverfisverkefninu Skólar á grænni grein sem var sérstakt markmið í umhverfisáætlun skólans. Á vorsýningu skólans sýna yngstu nemendur skólans verkefni sín sem tengjast einkunnaorðum skólans og hengja listaverk um alla ganga skólans. Skólasafnið tengist Gegni, nýju landskerfi bókasafna. Snælandsskóli er 30 ára, afmælisblað er gefið út og dreift til íbúa í hverfinu. Skólinn opnar nýja heimasíðu í tilefni afmælisins þar sem endurhannað skólamerki er kynnt. Skólinn kynnir stefnu sína í forvörnum og lífsleikni með tveimur nýjum áætlunum þar um. Umsjónarkennarar á yngsta stigi sækja námskeið um Davis námstæknina. Nýr aðstoðarskólastjóri er ráðinn, Jóhann Ólafsson, sem jafnframt er deildarstjóri yngsta stigs. Menntamálaráðherra heldur blaðamannafund í skólanum í september, með aðstoð 6. bekkinga, þar sem kynnt er væntanleg atkvæðagreiðsla meðal þjóðarinnar á þjóðarblómi Íslands (og síðar kom í ljós að varð Holtasóley). Nemendur í skólanum eru kringum 450, kennarar nálægt 40 og annað starfsfólk um 20 manns.

Athugið! Þetta er lausleg samantekt og villur geta hafa slæðst inn sökum þess hve heimildir eru stundum óljósar og ítarlegri heimildavinnu er þörf á köflum. Þá hefur verið sleppt að nefna þátttöku skólans í verkefnum sem hann hefur tekið þátt í með mörgum öðrum, s.s. bókasafnsvikum, norrænum dögum, Kópavogsdögum, Stóru lestrarkeppninni o.fl. Eins hafa ekki fundist upplýsingar um öll þróunarverkefni skólans á 30 ára sögu hans.

Samantektin á sögu Snælandsskóla er gerð í tveimur útgáfum, minni og stærri útgáfu. Minni útgáfan birtist í 30 ára afmælisblaði skólans en sú lengri á nýrri heimasíðu skólans. Þetta er lengri útgáfan.

Samantekt: Guðmunda H. Guðlaugsdóttir, Valgerður Björnsdóttir og Vigfús Hallgrímsson með aðstoð fyrrum skólastjóra og aðstoðarskólastjóra.