Velferðarkennsla í Snælandsskóla hlýtur viðurkenningu menntaráðs

Í dag voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi þróunarverkefni í grunnskólum Kópavogs, viðurkenningar sem kallast Kópurinn.

Soffía Weisshappel hlaut viðurkenningu fyrir kennslustundirnar Karakter á unglingastigi þar sem hún fléttar saman jákvæða sálfræði, námstækni, forvarnir og allt sem snýr að velferð og vellíðan. Verkefnið fór af stað haustið 2020 og hefur þegar sannað gildi sitt í skólastarfinu. Soffía er vel að verðlaununum komin og óskum við henni til hamingju með þau.

Auk verðlauna fyrir Karakter þá hlaut annað þróunarverkefni við Snælandsskóla tilnefningu til verðlauna en það er verkefnið Flæði á miðstigi þar sem áhersla er lögð á uppbrot á skóladeginum með þemabundnum verkefnum sem unnin eru í sex vikna lotum. Nemendur njóta handleiðslu kennara þvert á árganga við ýmis verkefni þar sem gefst tækifæri til að kafa í afmörkuð viðfangsefni.

Við erum afar stolt af því gróskumikla starfi sem á sér stað í Snælandsskóla og erum kennurum þakklát fyrir þeirra framlag í skólaþróun sem við erum sannfærð um að muni blómstra áfram við skólann.

Posted in Fréttaflokkur.