Lokahátíð Litlu upplestrarkeppninnar

Föstudaginn 7. maí fór fram Lokahátíð Litlu upplestrarkeppninnar í 4. bekk í Snælandsskóla 2021.

 

Litla upplestrarkeppnin sem nú er 11 ára hófst í Hafnarfirði á 15 ára afmæli Stóru upplestrarkeppninnar. Það er sérlega ánægjulegt að það skuli í ár taka þátt rúmlega 3000 nemendur í þeirri Litlu og í Kópavogi taka allir skólar þátt.

 

Litla upplestrarkeppnin hefur þann tilgang eins og Stóra keppnin að keppa að betri árangri í lestri, munnlegri tjáningu og framkomu. Markmið og einkunnarorð keppninnar eru  VIRÐING  – VANDVIRKNI   – ÁNÆGJA. Allir eru með í liðinu, allir koma fram á lokahátíðinni og allir fá viðurkenningarskjal í lokin. Keppnin felst í því að verða betri í lestri og framkomu og enginn er að keppa við annan en sjálfan sig.

 

Nemendur lásu ýmist einir eða saman mismunandi texta sem þau kynntu sjálf. Textarnir í keppninni í ár eru m.a. eftir Þórarin Eldjárn, Dr. Seuss, Kristján Hreinson, Þórð Helgason og Jóhannes úr Kötlum. Við fengum svo gestalesara þau Óskar, Sóleyju, Halldór og Þóru Sif úr 7. bekk sem eru að taka þátt í Stóru upplestrarkeppninni í Kópavogi miðvikudaginn 12. Maí. Þau lásu öll eitt ljóð. Einnig var svo boðið upp á tvö tónlistaratriði úr hvorum bekk. Krakkarnir stóðu sig allir frábærlega vel og við hlökkum til að sjá þau og heyra í Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk eftir 3 ár.

Posted in Fréttaflokkur.