Skólabyrjun 2020

Skólastarf hefst að nýju þriðjudaginn 25. ágúst en ljóst er að Covid-19 er komið til að vera og því verður skólahald í vetur að taka mið af því.

Við munum ávalt vinna í samræmi við og fylgja fyrirmælum almannavarna og sóttvarnalæknis auk þess sem við vinnum með menntasviði Kópavogs líkt og síðasta vetur.

 

Þar til annað kemur í ljós munum við fara af stað inn í veturinn þar sem við greinum á milli þess hvort í gildi sé neyðarstig almannavarna eða óvissustig/hættustig. Þegar þessar línur eru skrifaðar er hættustig og skv. því fer kennsla af stað með hefðbundnum hætti. Ýmsar ráðstafanir eru gerðar innan skólans m.a. til að tryggja 2 metra reglu meðal starfsfólks en einstaklingar fæddir 2005 og síðar eru undanþegnir fjarlægðar- og fjöldatakmörkunum.

 

Ef aðstæður breytast munum við bregðast við og takast á við þær eins vel og við getum og upplýsum við þá foreldra um breytingar á kennslu og/eða skólahaldi ef til þess kemur.

 

Skólasetning

Nemendur mæta á skólasetningu þriðjudaginn 25. ágúst á þeim tíma sem auglýstur er hér að neðan. Vegna aðstæðna eru foreldrar beðnir um að fylgja nemendum ekki á skólasetninguna.

Að lokinni skólasetningu verður haustkynning fyrir foreldra þar sem umsjónarkennarar kynna starf vetrarins og mun hún fara fram í gegnum fjarfundabúnað þetta haustið. Hlekkur sem vísar á fundinn verður sendur í tölvupósti til foreldra í gegnum Mentor að morgni 25. ágúst.

2.-4. bekkur kl. 9:00, haustfundur fyrir foreldra kl. 10:00

5.-7. bekkur kl. 10:00, haustfundur fyrir foreldra kl. 11:00

8.-10. bekkur kl. 11:00, haustfundur fyrir foreldra kl. 12:00

Kennsla hefst hjá þessum bekkjum skv. stundatöflu miðvikudaginn 26. ágúst.

 

1. bekkur:

Umsjónarkennarar munu boða foreldra og nemendur í viðtal 24. og 25. ágúst.

Skólasetning hjá 1. bekk verður miðvikudaginn 26. ágúst kl. 8:10 og kennsla hefst skv. stundatöflu að henni lokinni. Vegna aðstæðna eru foreldrar beðnir um að fylgja nemendum ekki á skólasetninguna.

Til stóð að halda „vorskóla“ sem er kynning og fræðsla fyrir nemendur og foreldra barna sem hefja nám í 1. bekk. Upphaflega átti hann að vera sl. vor en þegar það gekk ekki upp var ætlunin að halda hann fyrir skólabyrjun. Vegna ástands í samfélaginu teljum við ekki ráðlegt að halda hann núna en foreldrar barna í 1. bekk munu fá sendan upplýsingabækling þar sem farið verður yfir hagnýt atriði er snúa að því að hefja nám í grunnskóla og einnig upplýsingar um stoðkerfi skólans.

 

Frístund – Krakkaland

Opið er fyrir umsóknir í Krakkaland í gegnum Mínar síður hjá Kópavogsbæ. Fyrirspurnir varðandi Krakkaland má senda á netfangið krakkaland@kopavogur.is .

 

Foreldrum er velkomið að hafa samband við stjórnendur skólans ef eitthvað er óljóst eða ef einhverjar spurningar vakna varðandi skólastarfið í vetur.

Posted in Fréttaflokkur.