Í tilefni af degi íslenskrar tungu fékk Snælandsskóli skemmtilega heimsókn þegar rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson mætti og kynnti bækurnar sínar fyrir nemendum. Ævar hélt líflega kynningu og svaraði spurningum nemenda og hvatti þau til að fylgja eigin hugmyndum og sköpunargleði. Að lokum las hann upp úr nýjustu bók sinni, Skólastjórinn, sem vakti mikla kátínu og spennu í salnum. Skemmtilegar umræður sköpuðust í kjölfarið.
Að sama tilefni hélt Kristín Pétursdóttir deildarstjóri fræðandi og lifandi kynningu um Jónas Hallgrímsson, skáld dagsins, og mikilvægi íslenskrar tungu. Kristín kynnti jafnframt upplestrarkeppni 7. bekkjar, sem nú hefst formlega og mun standa fram í mars.
Nemendur fengu að heyra hvernig keppnin fer fram og hvers vegna upplestrarhæfileikar skipta máli í námi og daglegu lífi.
Að lokum stigu á svið Heiðbjört Anna og Sindri, sigurvegarar upplestrarkeppninnar frá síðasta skólaári. Þau lásu ljóð fyrir nemendur af miklum styrk og öryggi.






