Fimmtudaginn 20. nóvember var Dagur mannréttinda barna haldinn hátíðlegur í skólanum í samstarfi við UNICEF. Deginum var skipt í uppbrot og unnu nemendur fjölbreytt verkefni tengd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Réttindaráð skólans heimsótti allar stofur í upphafi dags og kynnti starfsemi sína.
Yngsta stig
Á yngsta stigi ræddu nemendur Barnasáttmálann, tóku þátt í söngstund og unnu saman að vináttusólum sem voru hengdar upp á ganginum. Sumir fengu einnig að lita myndir tengdar Barnasáttmálanum.
Miðstig
Nemendur á miðstigi ræddu einnig réttindi barna, sungu saman og bjuggu til dúkkulísur af sjálfum sér með útréttum höndum. Dúkkulísurnar voru hengdar upp hönd í hönd á ganginum og minntu á mikilvægi samstöðu og virðingar.
Unglingastig
Á unglingastigi unnu nemendur verkefnið „Er ég ábyrgur neytandi?“, rifjuðu upp greinar Barnasáttmálans með minnisspili og luku deginum á borðspilinu „Þekkið þið réttindi ykkar?“


