Í síðustu viku lauk vikulangri heimsókn húsamúsarinnar sem glatt hefur nemendur (og suma kennara) Snælandsskóla undanfarið. Gekk þó á ýmsu. Eins og kom fram í frétt fyrr í vikunni var henni úthlutaður bústaður í fiskabúri (tómu…) náttúrufræðistofunnar og var þar gert vel við hana í alla staði. Á matseðli var meira og minna sama úrval og kennurum stendur til boða á morgunverðarborði skólans dag hvern. En… á fjórða degi var henni nóg boðið og tók hún undir sig stökk upp þrítugan glervegginn og náði að koma sér út um loftgat á lokinu og virtist frelsinu fegin. Kom hún sér þægilega fyrir á bak við bókahillu í stofunni og var ekkert á því að láta blekkjast af boðum um þægilega dvöl á svokölluðu ”músarhóteli” sem komið var upp í nágrenni hins nýja dvalarstaðar. Hafði músin reyndar sérstakt lag á því að ná suðusúkkulaðinu sem átti að lokka hana inn í ”hótelið” án þess að valda því að fellihurðin lokaði hana inni. Þá var bara eitt í stöðunni: fjarlægja bókahilluna. Færðist þá heldur betur fjör í leikinn sem barst um alla stofu lengi morguns. Að lokum fór svo að nemandi náði að fella háfinn kyrfilega yfir músina og þar með var leiknum lokið (fyrir músina.. ). Var hún færð yfir í krukkuna sem hún hafði komið í og nemandinn sem kom með hana í upphafi fór með hana til síns heima.
Meðfylgjandi eru nokkur ”örmyndbönd” og skjáskot sem gætu varpað ljósi á atganginn!”
Björn Gunnarsson kennari