Úrslit í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Í vetur byrjaði nýr áfangi í Flæðinu á miðstigi sem ber yfirskriftina Nýsköpun og hönnun. Þar kynntust nemendur því hvernig við fáum hugmyndir og framkvæmum þær, æfðum okkur í að skoða umhverfi okkar og finna lausnir á vandamálum.

Stórt verkefni í áfanganum var að senda inn hugmynd í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5.-7. bekk, en keppnin hefur verið haldin árlega frá árinu 1991. Nemendur senda inn hugmyndir og að vori er nemendum sem komast í úrslit boðið í vinnusmiðju til að útfæra hugmyndir sínar með aðstoð leiðbeinenda frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og annarra samstarfsaðila. Í kjölfarið er haldið lokahóf þar sem forseti Íslands afhendir verlaun og viðurkenningarskjöl.

Í ár komust 24 hugmyndir áfram í úrslit og þar af voru tvö verkefni nemenda Snælandsskóla. Það voru verkefni Helenu Óskar Guðmundsdóttur og Ingu Bríetar Valberg í 5. bekk, „Kabúmm – Spil fyrir sjónskerta og blinda“, og verkefni Kristínar Þórdísar Guðjónsdóttur í 7. bekk, „TSS: The Shopping Scrunch – Hárteygja með fjölnota poka inn í“. Við óskum þeim til hamingju með frábæran árangur og hlökkum til að fylgjast með þeim í úrslitunum.

Margrét Arna Vilhjálmsdóttir kennari

Posted in Fréttaflokkur.