Lokahóf lestrarátaksins „Lesum saman – allir græða”

Lokahóf lestrarátaksins í 1.-4. bekk „Lesum saman – allir græða” var haldið í morgun. Guðmunda Guðlaugsdóttir skólasafnskennari ræddi við nemendur á sal skólans um það hvað þeir hafa verið duglegir að lesa í átakinu. Teknar voru saman tölur og uppgjör gert í „bankanum” þar sem fram kom á myndrænan hátt, í skífuritum og súluritum, hvað krakkarnir hafa verið duglegir að lesa í mínútum og klukkustundum að meðaltali í hverjum bekk. Allir bekkir sýndu söngatriði og Margrét Thorodssen spilaði undir á píanó. Sum lögin tengdust lestrarátakinu, meðal annars var sungið um peninga og bankarán. 1. bekkur söng lagið „Óskasteinar” háum rómi og skemmtilega frumsaminn texti kom frá 2. bekk í laginu Eniga meniga, eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur í grunninn.

 

Eniga meniga, allir vilja peninga.

hlaupandi, kaupandi,

kaupa meira fínerí.

Kaupæði, málæði,

er þetta ekki brjálæði?

Eitthvað fyrir alla, káta krakkalakka
krakka með hár og krakka með kalla.
Eitthvað fyrir alla, káta krakkalakka,
það kostar ekki neitt þú krækir bara í pakka.

Eniga meniga, ég á enga peninga.

hlaupandi, raulandi,

lestur er svo eflandi.

lesandi, þegjandi,

með garnirnar gaulandi.

Eitthvað fyrir alla, káta krakkalakka
krakka með hár og krakka með kalla.
Eitthvað fyrir alla, káta krakkalakka,
það kostar ekki neitt þú krækir bara í pakka.

Feitan, góðan pakka, fyrir lestrar-krakka.

 

Þriðji bekkur söng Grænmetisvísur sem er atriði úr Dýrunum í Hálsaskógi sem þau sýna næstu viku.

 

Fjórði bekkur söng lagið „Stína og brúðan” með þessum texta:

 

„Hún mamma kemur í bæinn bráðum og borgar skuldina mína.”

Einnig sungu þau Stuðmannatextann um Svarta Pétur og kölluðu „Guðmundu bankastjóra” upp á svið:

 

„Svarti Pétur ruddist inn í bankann
með byssuhólk í hvorri hönd.
Heimtaði með þjósti peningana
og bankastjórann hneppti í bönd.“

 

Lestrarátakið hefur verið mjög vinsælt og verið hvatning og stuðningur fyrir nemendur til að lesa meira. Nemendur halda síðan áfram að lesa inn í bekk. Bankinn og sjoppan verða opin á bókasafninu, þar sem Magnús Kjartansson, skólaliði og frístundaleiðbeinandi sem hefur aðstoðað í átakinu sem sjoppustjóri og Guðmunda sem bankastjóri ætla að  hafa opið út næstu viku til að slá botninn endanlega í átakið.

Posted in Fréttaflokkur.