Þrír nemendur í sjötta bekk, þær Erla Máney, Heiðbjörg Anna og Rúna, eru höfundar að baki vinningsatriðis í söguverkefni KrakkaRÚV. Þær gerðu handrit að stuttmynd í íslenskutíma sem heitir Óskahálsmenið. Á næstunni fara þær ásamt foreldrum að hitta teymi frá Ríkisútvapinu til að undirbúa stuttmynd byggða á handritinu sem verður sýnd bráðlega. Sögur er stórt samstarfsverkefni margra stofnana sem allar vinna að barnamenningu og sköpun með því að veita börnum á aldrinum sex til tólf ára tækifæri til að spreyta sig á sögugerð. Á vef RÚV segir um verkefnið: „Sögur geta birst í formi leikrita, laga og texta, stuttmynda og smásagna svo dæmi séu tekin, allt eftir því hvað heillar hverju sinni. Markmið verkefnisins er að auka áhuga barna á sögugerð á fjölbreyttu formi, sýna börnum að hverju hugmyndir þeirra geta orðið og upphefja þannig barnamenningu á Íslandi.“