Inga Bríet Valberg nemandi í 5. bekk Snælandsskóla hlaut önnur verðlaun fyrir ljóðið Ég og hún í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs.
Ég og hún
Ég geng með fjölskyldunni
um mosi vaxið hraunið
í mildu haustveðrinu.
Ég horfi á tunglið
speglast í vatninu,
og tunglið horfir til baka á mig.
Hún gengur ein
um myrkar húsarústirnar,
í hljóðlátu haustveðrinu.
Hún horfir á sama tunglið lýsa
upp staðinn þar sem áður stóð heimili.
Tunglið horfir huggandi til baka.
Inga Bríet Valberg
Snælandsskóla, 5. bekk
Ljóðstafur Jóns úr Vör var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 21. janúar. Við sama tilefni voru veitt verðlaun í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs og var dómnefnd sú sama. Þar hlaut fyrstu verðlaun Alexander Aron Jörgensson í 10. bekk í Lindaskóla fyrir ljóðið Appelsínur en Alexander hlaut einnig fyrstu verðlaun í sömu keppni fyrir réttu ári. Önnur verðlaun hlaut Inga Bríet Valberg, 5. bekk í Snælandsskóla fyrir ljóðið Ég og hún og þriðju verðlaun hlaut Sigurlín Viðarsdóttir, 10. bekk í Lindaskóla fyrir ljóðið Mjöll, Fönn og Drífa.
Til hamingju Inga Bríet Valberg!