Þakkir til foreldrafélagsins

Um helgina fór fram jólaföndur í skólanum en það er árviss viðburður sem foreldrafélag skólans hefur haldið utan um í fjölmörg ár. Þá geta nemendur og fjölskyldur þeirra komið saman til að skreyta piparkökur og föndra jólaskraut en einnig er hægt að njóta aðventunnar með því að kaupa kaffi og með því hjá nemendum í 10. bekk sem eru í fjáröflun fyrir útskriftarferð sína.

Að vera með gott foreldrafélag er dýrmætt fyrir hvern skóla enda er það hagur nemenda að bæði starfsmenn skóla og foreldrar komi að því að gera skólastarf farsælt með ýmsum hætti. Snælandsskóli hefur gjarnan búið við þann lúxus að foreldrar eru tilbúnir til að gefa af sér og sínum tíma í þágu skólans og stundum komast færri að en vilja í það hlutverk. Í ár ákvað foreldrafélagið að þakka tveimur fulltrúum fyrir óeigingjarnt starf í félaginu til margra ára og sem þakklætisvott fengu þær Brynja Rut Sigurðardóttir og Arna Björk Þórðardóttir blómvönd frá foreldrafélaginu. Brynja gat því miður ekki verið á staðnum til að taka á móti sínum vendi en Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir, formaður foreldrafélagsins, afhenti Örnu blómvönd.

Um leið og foreldrafélagið þakkar þeim fyrir sína vinnu í foreldrafélaginu þá þakkar starfsfólk Snælandsskóla þeim einnig fyrir sitt framlag fyrir skólasamfélagið og fyrir farsælt samstarf auk þess sem við þökkum öllum fulltrúum í foreldrafélaginu fyrir sín störf og fyrir vel heppnað jólaföndur.

Posted in Fréttaflokkur.