8. bekkur fékk ánægjulega heimsókn í morgun!

Myndarleg hunangsflugudrottning (móhumla – Bombus jonellus –  fannst ósjálfbjarga á gólfinu í setustofu unglingastigs í Snælandsskóla í morgun. Nemendur í 8. bekk voru í þann veginn að hefja yfirferð á 6. kafla bókarinnar „Lífheimurinn“ í náttúrufræði sem fjallar um, nema hvað, skordýr!

Drottningunni var samstundis bjargað af gólfinu og fékk hún konunglegar móttökur í náttúrufræðistofunni. Þar gafst henni tækifæri á að ná áttum í rólegheitum á kennaraborðinu. Á meðan fræddust nemendur um lífshætti og lífsferil hunangsflugna. Að sjálfsögðu var hún mynduð í bak og fyrir.

Þessa dagana eru hunangsflugudrottningarnar að vakna af vetrardvala sínum og hefja flugið í leit að heppilegum stað í jörðinni (undir steinum, laufblöðum, torfi ofl.) til þess að byggja ný bú. Þær geta verið dálítið illa áttaðar og villast oft inn í híbýli fólks. Við hvetjum alla, sem eru svo heppnir að fá þessa ljúflinga í heimsókn, að aðstoða þær við að rata út í vorið á ný. Án þeirra væri sumargróðurinn ósköp fátæklegur.

Hér er slóð á vísindavefinn ef fólk vill kynna sér hunangsfluguna betur

 

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4768 

 

Björn Gunnarsson kennari

Posted in Fréttaflokkur.