Jafnréttisdagurinn

Jafnréttisdagurinn okkar með UNICEF réttindaskólasniði var haldinn 3. febrúar. Nemendur voru þá fyrstu 4 tímana í verkefnum tengum þeim degi með öllum kennurum skólans og stuðningsfulltrúum.

Á yngsta stigi var fjallað um réttindi barna. Oft er fjallað um börn sem fá ekki að njóta réttinda sinna í ævintýrum og við skoðuðum Öskubusku sem svo sannarlega fær sjaldnast notið réttinda sinna. Nemendur gátu vel sett sig í spor Öskubusku og sáu hvar á henni var brotið.

Á miðstigi var fjallað um þátttökustigann. Eitt mikilvægasta skilyrði þess að þátttaka barna hafi tilgang er að fullorðnir virði það að börn geti verið með í ákvarðanatökum og að þau séu viðurkennd sem fullgildir aðilar að ákvarðanatöku um málefni sem varða þau sjálf.  Ekki viljum við að þátttaka barna sé einungis til málamynda. Við viljum að börn geti sagt skoðanir sínar og að það sé líka tekið tillit til þess sem þau hafi um málefnin að segja. Nemendur veltu fyrir sér mismunandi stigum þátttöku barna í skólastarfi og gátu komið með tillögur að verkefnum sem þeir gætu haft áhrif á eða stjórnað í skólanum.

Á unglingastigi var fjallað um fólk sem haft hefur mikil áhrif á annað fólk og samfélög í gegnum tíðina. Nemendur kynntu sér ákveðna aðila og gerðu kynningu í hópum í appi eða forriti sem þau völdu sjálf. 8. bekkur kynnti sér hvað Malala Yousafzai stendur fyrir, 9. bekkur kynnti sér Nelson Mandela og 10. bekkur Martin Luther King jr.

Að lokum horfðu nemendur á myndina Á leið í skólann, Sur le chemin de l’école. Þetta er frönsk heimildarmynd sem segir sögu fjögurra barna: Jacksons í Kenía, Zahiru í Marokkó, Carlos í Argentínu og Samúels á Indlandi. Þau eiga ekki margt sameiginlegt en öll þurfa þau að fara langa og erfiða leið í skólann. Þau leggja ferðalagið á sig til að eiga möguleika á betra lífi en foreldrar þeirra áttu kost á. Myndin er eftir Pascal Plisson og var sýnd á RÚV – aðgengileg á vef ruv.is til 5. febrúar.

Kristín Pétursdóttir

Deildastjóri Snælandsskóla

Hægt er að skoða myndband á Snælandsskólasíðunni á fésbókinni frá þessum degi.

https://www.facebook.com/snaelandsskoli/videos/2489020614737902

 

Posted in Fréttaflokkur.