Skólastarf frá 4. maí

Foreldrar/forráðamenn

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.

Eðlilegt skólastarf frá 4. maí
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá mun skólastarf vera með eðlilegum hætti frá og með 4. maí. Skv. nánari upplýsingum sem við höfum fengið þá þýðir það í orðsins fyllstu merkingu að skólahald verði eðlilegt þ.e. með sama hætti og það var áður en samkomubann og aðgerðir tengdar útbreiðslu covid-19 tóku gildi. Einu takmarkanirnar snúa að starfsfólki og foreldrum þ.e. ekki er leyfilegt að vera með fleiri en 50 fullorðna í sama rými á sama tíma og starfsfólk þarf að huga að 2m reglunni, en sú regla mun ekki gilda um börn og unglinga á grunnskólaaldri. Við biðjum því foreldra um að koma ekki inn í skólann að nauðsynjalausu og kveðja og sækja börnin sín utan við skólann eins og verið hefur.
Við skipuleggjum því skólastarfið út frá tilmælum yfirvalda og bendum foreldrum á að svör við ýmsum spurningum sem snúa að starfi grunnskóla frá 4. maí má finna á „Spurt og svarað“ svæði á vef menntamálaráðuneytis hér: https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/spurt-og-svarad-skolastarf-a-neydarstigi-almannavarna/ .
Við hvetjum ykkur til að skoða upplýsingar þar en ef eitthvað er óljóst eða kemur ekki fram þar þá er ykkur velkomið að hafa samband við stjórnendur skólans og spyrjast fyrir um ákveðin atriði.

Ekki matur frá mötuneyti
Því miður eru aðstæður í skólaeldhúsi Snælandsskóla þannig að ekki er hægt að tryggja að 2m séu milli starfsfólks sem þar starfar og því verður ekki hægt að hafa mötuneytið opið fyrir nemendur. Það er því nauðsynlegt að nemendur komi með nesti að heiman, bæði morgunnesti og hádegismat. Við ítrekum að skólinn er hnetulaus vegna bráðaofnæmis nokkurra nemenda og því mikilvægt að nesti innihaldi ekki hnetur eða hnetuafurðir. Nemendur þurfa í einhverjum tilvikum að borða inni í kennslustofum en geta fengið afnot af hnífapörum og diskum en við mælum með nesti á borð við samlokur, niðurskorna ávexti eða annað sem þeir geta borðað án þess að þurfa áhöld frá skólanum. Sama gildir um drykkjarílát, við mælum með fjölnota vatnsbrúsa að heiman undir vatn. Ef nemendur koma með t.d. núðlur sem þarf að hita þá þurfa þeir að koma með heitt vatn á brúsa að heiman (mælum samt ekki með því og alls ekki fyrir yngsta stig). Einungis einn örbylgjuofn er til hitunar þ.a. ekki verður í boði fyrir um 450 nemendur að nota hann.

Stundatafla í gildi, sund og íþróttir
Frá og með 4. maí verður kennt skv. stundatöflu og þ.á.m. sund og íþróttir. Nemendur þurfa að mæta með sundföt þá daga sem skólasund er hjá þeim og í íþróttatíma þurfa nemendur að mæta klæddir eftir veðri þar sem íþróttir vera kenndar utandyra í maí eins og iðulega er gert á vorin.
Einhverjar breytingar gætu orðið á uppbrots- og vordögum frá því sem stendur á skóladagatali en nánari dagskrá og breytingar verða tilkynntar þegar að því kemur.
Eins og við höfum áður nefnt gildir nú og áfram að ef nemendur geta ekki komið í skólann vegna einhverra aðstæðna þá þurfa foreldrar að hringja inn leyfi eða fylla út leyfisbeiðni á heimasíðu skólans. Slóð á leyfisbeiðni er: https://snaelandsskoli.is/leyfisbeidnir/

Frístund
Frá og með 4. maí opnar frístund aftur fyrir nemendur í 2.-4. bekk sem hafa verið skráðir þar. Vegna takmörkun á hópastærð og þar sem nemendur og starfsmenn mega ekki fara milli hópa fyrr en frá 4. maí hefur aðeins verið hægt að bjóða upp á frístund fyrir 1. bekk en það mun breytast þegar tilslakanir á samkomubanni taka gildi.

Verkfall
Að lokum verðum við að nefna að starfsmenn Eflingar eru þessa dagana að kjósa um það hvort verkfallsaðgerðir hefjist að nýju 5. maí en þeim var frestað á sínum tíma vegna aðstæðna í samfélaginu. Við vonum að sjálfsögðu að það verði hægt að leysa þá deilu sem fyrst og að ekki komi til verkfalls að nýju en ef það gerist getum við þurft að breyta skipulagi og skerða skólastarf að nýju.

Kveðja,
Skólastjórnendur

Posted in Fréttaflokkur.