Dýravistfræði í Snæló – leið geisla sólarinnar í hádegismat!

Eins og fram kemur neðar á þessari síðu þá krufðu nemendur í 8. bekk, hér um daginn, fiska með miklum myndarbrag. Þegar maginn í einum af þorskunum var opnaður kom í ljós svo til glænýr sprettfiskur sem þorskurinn hafði gætt sér á rétt áður en hann var sjálfur fangaður. Þegar maginn í sprettfisknum var opnaður kom í ljós svo til glæný þanglús! Þanglúsin lifir á, eins og nafnið ber með sér, þangi sem er frumframleiðandi – vinnur orku úr sólarljósi. Að lokinni krufningu fóru nemendur í hádegismat eins og lög gera ráð fyrir… og hvað haldiði að hafi verið í matinn….? Jú jú.. einmitt… þorskur! Þar með voru nemendur 8. bekkjar Snæló orðnir ekki bara toppnemendur heldur líka toppneytendur í þessari fallegu fæðukeðju!

Að lokum var þorskurinn aldursgreindur en þá eru kvarnirnar sóttar inn í hausinn á fisknum. Í kvörnum myndast árhringir sem nemendur töldu. Þessi reyndist fjögura ára!

Björn Gunnarsson náttúrufræðikennari

Posted in Fréttaflokkur.