Aladdín töfraði alla upp úr skónum

Nemendur í 6. bekk á miðstigi stigu á svið í vikunni með glæsilega uppfærslu á söngleiknum Aladdín, sem haldinn var í sal skólans bæði á þriðjudag og miðvikudag. Sýningarnar voru haldnar fyrir nemendur skólans, verðandi 1. bekkinga úr leikskólum, starfsfólk og fjölskyldur nemenda – og skapaðist einstaklega skemmtileg stemning í salnum.

Söngleikurinn byggir á klassísku ævintýri og snertir á djúpum málefnum eins og stéttaskiptingu og hlutverki kynjanna. Áhorfendur fylgdust með því þegar Aladdín reyndi að vinna hug og hjarta Jasmínar, sem í upphafi dulbýr sig sem þjónustustúlku af almúgaættum. Úr verður ævintýri fullt af spennu, ást, baráttu og frelsisþrá.

Nemendur fóru á kostum og sýndu ótrúlega leiklistarhæfileika. Leikstjórn var í höndum Margrétar Th., sem einnig sá um tónlist og var aðstoðarhandritshöfundur. Sophie Webb sá um leikstjórn, skrifaði handritið og sá einnig um dansatriðin, og Inga Sigurjónsdóttir sá um leikstjórn og hafði umsjón með leikmunum. Margrét Arna sá um sviðsmynd.  Umsjónarkennararnir Hrund og Gréta veittu dýrmætan stuðning og eldri nemendur tóku þátt í  að mála leikara fyrir sýningarnar.

Alls voru settar upp sex sýningar og má með sanni segja að þær hafi heillað áhorfendur á öllum aldri.

 

    

Posted in Fréttaflokkur.