Fræðsla um ábyrga netnotkun, samskipti á netinu, samfélagsmiðla og fleira

Í vikunni kom Skúli Bragi Geirdal og ræddi við nemendur í 5.-10. bekk um ábyrga netnotkun, samskipti á netinu, samfélagsmiðla og fleira. Síðar um daginn var hann með fræðsluerindi fyrir foreldra skólans. Nemendur voru mjög áhugasamir sýndu sínar bestu hliðar, eins og alltaf.

Skúli er fjölmiðlafræðingur að mennt og sérfræðingur á sviði upplýsinga- og miðlalæsis. Hann starfar í dag sem sviðsstjóri SAFT – Netöryggismiðstöðvar Íslands. Skúli stofnaði og heldur úti Tengslaneti um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi. Auk þess felst starf hans m.a. í stefnumótunarvinnu, alþjóðlegu samstarfi, fræðslustarfi og umsjón með rannsóknum Fjölmiðlanefndar á miðlalæsi sem unnar eru í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og Maskínu. Skúli er þá einnig stundakennari í fjölmiðlafræðum við Háskólann á Akureyri.

 

Hér að neðan eru upplýsingar um erindin sem hann var með fyrir nemendur og einnig eru slóðir á efni sem foreldrar geta skoðað.

 

 

Netumferðarskólinn 5.-7. bekkur

Fræðsluerindið er blanda af fyrirlestri, hópverkefni og samtali við börnin þar sem áherslan er á vitundarvakningu, hugtakaskilning og valdeflingu.

 

Helstu atriði:

  • Nettengd skjátæki – til hvers er hægt að nota þau og hvað er hægt að gera án þeirra?
  • Samskipti á netinu – hvað má og hvað ekki í mynddeilingum?
  • Hvernig ná tölvuleikir athygli okkar og hvað getum við gert til að skapa jafnvægi
  • Myndlæsi og gervigreind – hvernig greinum við á milli mynda af raunverulegu fólki og þess sem gervigreindin býr til?
  • Hvað gerum við þegar að ókunnugir hafa samband og senda okkur skilaboð?
  • Hvað gerum við þegar að við sjáum eitthvað ljótt á netinu?
  • Samfélagsmiðlar og aldursmerkingar í bíómyndum, þáttum og tölvuleikjum.
  • Algóritmar og virkni þeirra (bara 7. bekkur)

Um Netumferðarskólann

Verkefnið sem um ræðir er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í netöryggi og var upphaflega styrkt af Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Fjölmiðlanefnd og Persónuvernd fengu það hlutverk upphaflega að vinna fræðsluefni um upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi ásamt því að auka þekkingu á persónuvernd í meðferð upplýsinga.

 

 

Unglingastig – 8.-10. bekkur

Algóritminn sem elur mig upp

Hvers virði eru upplýsingarnar um okkur og hvað greiðum við fyrir aðgang okkar að samfélagsmiðlum? Skúli B. Geirdal fjölmiðlafræðingur og sérfræðingur í miðlalæsi fer hér yfir mikilvægi þess að vera læs á upplýsingar og miðla í nútíma samfélagi. Fjölmiðlalæsi, auglýsingalæsi, gervigreindarlæsi, myndlæsi o.fl. Hvernig virka algóritmar samfélagsmiðlanna og með hvaða hætti hefur tæknin áhrif á okkar daglega líf og líðan? Hvað þarf að hafa í huga varðandi samskipti á netinu, áreitni frá ókunnugum og deilingu mynda? Markmiðið með fræðslunni er að valdefla nemendur í taka stjórn á eigin skjánotkun og kenna þeim leiðir til að nýta tæknin á betri hátt. Erindið byggir á niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlnefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands um börn og netmiðla. Heimasíða: www.saft.is

 

Ítarefni fyrir foreldra:

Hér eru leiðbeiningar fyrir foreldra þar sem farið er í netöryggi, persónuvernd, samfélagsmiðla, tölvuleiki, friðhelgisstillingar, skjátíma, algóritma og ýmislegt fleira með umræðupunktum fyrir foreldra.

Miðlalæsi.is – Á vefsíðunni miðlalæsi.is eru sex myndbönd um samfélagsmiðla og líðan barna, fréttir og falsfréttir, áhorf á klám og hatur og einelti á netinu. Þar er einnig að finna kennslustuðningsefni fyrir kennara með hverju myndbandi ásamt ítarefni og verkefnum til að nota í kennslu.

Vefur Netumferðarskólans (www.netumferdarskolinn.is) er kominn í loftið! Þar er að finna upplýsingar um jafnvægi í skjátíma, aldursmerkingar, aldursmat samfélagsmiðla o.fl.  Ég er enn að bíða eftir yfirlestri á leiknum „þú ræður“ hann kemst vonandi í loftið fljótlega.

 

Skjárinn og börnin – Heilsuvera – https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/throskaferlid/uppeldi-barna/skjarinn-og-bornin/

Skjátímaviðmið fyrir börn og ungmenni. Börn í dag alast upp í umhverfi sem er hlaðið tækjum og með stöðugum tækninýjungum. Með skynsamri umgengni við þessi tæki geta þau verið hluti af góðu uppeldi. Fyrstu kynni barna af snjalltækjum ættu alltaf að fara fram undir handleiðslu foreldra, forsjáraðila og/eða annarra fullorðinna.

 

112.is – Netöryggi – https://www.112.is/netoryggi

Samskipti fara æ oftar fram á netinu. Mikilvægt er að vita hvaða hegðun er í lagi, hvaða hegðun er óviðeigandi og hvað eigi að gera þegar stafrænt ofbeldi á sér stað. Lærðu hvernig þú getur bætt öryggi þitt og þinna á netinu.

Posted in Fréttaflokkur.