Dagur mannréttinda barna var haldinn í dag á uppbrotsdegi skólans. Fyrstu fjórar kennslustundir dagsins voru helgaðar því málefni. Nemendur mættu í heimastofur og sáu myndband frá Barnaheillum þar sem rætt er við börn frá Grindavík, Úkraínu og Palestínu sem öll eiga það sameiginlegt að hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Auk þeirra er rætt við sérfræðing í fjölmenningarmálum. Nemendur ræddu saman um myndbandið og varpað var upp spurningum sem tengdust því. Í öðrum tíma var nemendum skipt upp í hópa og þeir ræddu og skrifuðu niður tillögur um mikilvægustu leiðir til að bæta skólastarfið. Eftir hlé, í þriðja og fjórða tíma, fóru nemendur í hópa sína aftur og horfðu á myndband frá þeim nemendum sem bjóða sig fram sem fulltrúa á barnaþing. Allir nemendur innan hópa kusu annars vegar tvær tillögur af þeim sem lagðar voru fram fyrr um morguninn og hins vegar um fulltrúa á barnaþingið, einn af miðstigi og einn af unglingastigi. Eldri nemendur stýrðu umræðum og skráðu niðurstöður í spjaldtölvur sínar.