Í síðustu viku notuðu nemendur í 8. bekk Snælandsskóla góða veðrið til þess að mæla rennslið í Fossvogslæknum. Til þess að framkvæma athugunina þurftu þau að taka með sér málband (og/eða tommustokk), skeiðklukku (í síma), skriffæri og…. appelsínu!
Þau byrjuðu á að leita að og finna hentugt spottakorn (u.þ.b. 3 m) þar sem lækurinn er sæmilega jafnbreiður og jafndjúpur. Að því búnu var dýpið og breiddin mæld og allt skráð niður. Þá var appelsínunni dembt útí og mælt hversu langan tíma það tók ávöxtinn að ferðast þessa þrjá metra!
Eftir góða útiveru var svo haldið í náttúrufræðistofuna og rennslið í læknum reiknað út. Reyndist það vera u.þ.b. 10 l/sekúndu (lækurinn fyllir 10 mjólkurfernur á einni sekúndu – eftir allar rigningarnar í þessari viku þá má búast við að þær séu fleiri í dag, fernurnar)!
Af hverju appelsína?
Appelsína hefur nánast sama eðlismassa og vatn og ferðast því með straumnum á sama hraða og vatnið. Hvað með epli… banana…?
Björn Gunnarsson kennari í náttúrufræði og umsjónarkennari