Umhverfisdagurinn var haldinn í dag en hann er samkvæmt skóladagatali uppbrotsdagur. Fyrstu tvo tímana voru nemendur í heimastofum með umsjónarkennurum og voru fræddir um umhverfisvernd. Á yngsta stiginu var bókin um Rusladrekann lesin og farið yfir spurningar sem tengjast sögunni, rusli og endurvinnslu. Á miðstigi horfðu nemendur á brot úr þættinum „Þrælar tískunnar“ á RÚV. Nemendum var skipt upp í hópa til að ræða meðal annars eftirfarandi umræðuspurningar: Hvað er hraðtíska? Af hverju viljum við kaupa okkur ný föt? Hvað er hægt að spara mikið kolefnisspor með því að versla á loppumarkaði? Eruð þið meðvituð um áhrif tískuiðnaðarins á umhverfið? Hvað geta þið gert til þess að leggja ykkar af mörkum í umhverfismálum? Unglingastigið horfði á þáttinn „Staðreyndir um loftslagsbreytingar“. Nemendum var skipt upp í hópa til að svara svo meðal annars spurningunni: Hvað getum við gert til að hjálpa loftslaginu? Eftir frímínútur hittust vinabekkir og plokkuðu saman á ákveðnum svæðum. Hver hópur fékk þrjá poka til að flokka rusl í plast, pappír og almennt rusl. Ruslapokum var síðan safnað saman í „ruslafjall“ fyrir framan aðalinngang. Veðrið með eindæmum gott og fallegt, sól og blíða.