Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum miðvikudaginn 17. maí. Alls bárust 15 tilnefningar til menntaráðs og voru veittar sex viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skóla og frístundastarfi.
Snælandsskóli fékk tvær viðurkenningar: Íris Stefánsdóttir kennari hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt Vísindasmiðja í 3. bekk. Þar setja nemendur fram rannsóknarspurningu og tilgátu, framkvæma tilraun og fá niðurstöðu. Teknar eru myndir og myndbrot af ferlinu og sett inn í rafbók Book Creator þar sem öllum tilraununum er safnað saman. Nemendur tileinka sér vinnubrögð og hugtök vísindanna sem á eftir að nýtast þeim í áframhaldandi námi.
Kennarar á miðstigi og stjórnendur Snælandsskóla hlutu viðurkenningu fyrir verkefnið Flæði á miðstigi. Verkefnið felur í sér skipulag og uppbrot á stundatöflu á miðstigi þar sem markmiðið var að mæta þörfum drengja betur í skólakerfinu. Eftir fyrstu fjórar kennslustundir dags tekur við Flæði þar sem nemendur á miðstigi vinna ákveðið þemaverkefni í sex vikur í senn. Að þeim loknum tekur við önnur sex vikna lota með annars konar þemaáherslu og sjá aðrir kennarar um þá vinnu. Með þessu fæst fjölbreytileiki í verkefnavinnu nemenda, nemendur vinna undir handleiðslu og áherslum ólíkra kennara og loks gerir lotuvinnan kennurum kleift að kafa dýpra í námsefnið nálgast það með hætti sem áður gafst minni tími til.
Soffía Weisshappel kennari hlaut tilnefningu fyrir verkefnið sitt Veistu hver ÞÚ ert?
Við erum afar stolt af því gróskumikla starfi sem á sér stað í Snælandsskóla og erum kennurum þakklát fyrir þeirra framlag í skólaþróun sem við erum sannfærð um að muni blómstra áfram við skólann.