Skólabragur og skólareglur

Hegðun og mætingar nemenda

Í Snælandsskóla hafa starfsmenn og nemendur valið lífsgildin fjögur: visku, virðingu, víðsýni og vinsemd til að hafa að leiðarljósi í samskiptum.  Við þurfum því í sameiningu að ákveða hvernig við getum haft þessi grundvallaratriði í heiðri. Samhliða því er skólinn Olweusarskóli þar sem lögð er áhersla á fyrirbyggjandi samræður á bekkjarfundum til að stuðla að góðum skóla- og bekkjaranda.

Snælandsskóli er og á að vera notalegur og frjálslegur skóli með skýr mörk.  Við viljum að nemendur hafi svigrúm, frelsi og áhrif en læri um leið að taka ábyrgð á eigin gjörðum.  Að auka svigrúm og áhrif nemenda er ekki eftirlátsemi við reglur. Þegar við höfum valið okkur lífsgildi til að fara eftir er mikilvægt að bregðast við ef einhver vanvirðir það sem ákveðið hefur verið.  Það er hlutverk þeirra fullorðnu í skólanum að fylgja þessu eftir með því að setja reglur sem styðja við gildin og viðurlög ef út af bregður.

Vinaliðaverkefni í Snælandsskóla

Vinaliðaverkefni Snælandsskóla er norskt að uppruna. Vinaliðaverkefnið gengur út á það að hvetja nemendur til aukinnar þátttöku í afþreyingu í frímínútunum og er ætlað að skapa betri skólabrag. Meginmarkmið verkefnisins er að bjóða öllum nemendum skólans fjölbreytt úrval afþreyingar í frímínútum, þannig að bæði yngri og eldri nemendur skólans finni eitthvað við sitt hæfi. Markmið okkar er að allir nemendur skólans hlakki til að mæta í skólann sinn, alla daga. Vinaliðaverkefnið er ekki eineltisáætlun heldur stuðningsverkefni við eineltisáætlun skólans og góðan skólabrag. Hugmyndafræðin er sú að þar sem boðið er upp á skipulagt starf, fái gerendur eineltis aðra hluti til að hugsa um. Á unglingastigi sjá verkefnisstjórar í samstarfi við Igló um að hafa dagskrá fyrir nemendur í frímínútum. Helga Björk Árnadóttir íþróttakennari og Jón Óttarr Karlsson eru verkefnisstjórar Vinaliðaverkefnisins.

Góður skólabragur tengist skólareglum

Flestir nemendur leitast við að hegða sér vel í skóla en samt sem áður er  nauðsynlegt að allir nemendur þekki þær leikreglur sem gilda í skólasamfélaginu. Góð hegðun nemanda er samofin skólareglum sem gilda í skólanum.

Góð hegðun nemanda í skóla:

  • Mætir stundvíslega í skólann, hefur það meðferðis sem honum ber og kemur vel undirbúinn.
  • Vandar öll vinnubrögð og frágang á verkefnum.
  • Fer vel með skólagögn og verðmæti sem honum er trúað fyrir.
  • Gengur vel um skólann sinn og umhverfi hans.
  • Hlýðir fyrirmælum og virðir verkstjórnarhlutverk starfsmanna.
  • Virðir skólareglur og aðrar samskiptareglur sem gilda í skólanum.
  • Leitast við að hafa stjórn á eigin hegðun, bæði í orðum og gjörðum.
  • Er tillitssamur og gerir sér far um að setja sig í spor annarra.
  • Leitast við að leysa úr ágreiningi sem upp kann að koma af skynsemi og án ofbeldis.
  • Virðir eignarrétt annarra.
  • Virðir það að línuskautar, reiðhjól, vespur, hlaupahjól og hjólabretti eru bönnuð á skólalóð á skólatíma.
  • Notar ekki gsm síma, snjalltæki eða önnur fjarskipta og hljómtæki í kennslustundum án leyfis kennara.
  • Virðir það að sælgæti, snakk, gosdrykkir og orkudrykkir eru ekki leyfilegir í skólanum og á skólalóðinni.
  • Virðir bann við reykingum, rafrettum, munntóbaki og öðrum vímugjöfum.

 Óviðeigandi hegðun nemenda er þegar:

  • Nemandi hegðar sér ekki í samræmi við skólareglur og almennar kurteisis- og samskiptareglur.
  • Nemandi veldur með hegðun sinni truflun á skólastarfi og/eða vanlíðan hjá öðrum nemendum eða starfsfólki.

Ferli atburða og viðurlög ef út af bregður vegna hegðunar

Viðkomandi kennari aðvarar nemanda einslega og lætur umsjónarkennara vita. Hlýði nemandi ekki fyrirmælum kennara má vísa honum út úr kennslustund. Kennari upplýsir foreldra.

Brjóti nemandi ítrekað eða alvarlega gegn skólareglum, ræðir kennari og/eða umsjónarkennari við nemanda og foreldra/forráðamenn.

Ef enn situr við það sama vísar viðkomandi umsjónarkennari málinu til deildarstjóra sem kallar nemanda og foreldra/forráðamenn á fund um málið. Umsjónarkennari upplýsir Nemendaverndarráð um málið.

Sé ástandið enn óviðunandi er málinu vísað til skólastjóra sem kallar nemanda og foreldra/forráðamenn á fund, þar sem farið er yfir málið og reynt að finna lausn.

Reynist viðleitni skólastjóra árangurslaus er málinu vísað til fræðsluyfirvalda. Við þessar aðstæður er heimilt að vísa nemandanum úr skóla á meðan tekið er á málefnum hans.

Foreldrar/forráðamenn eru látnir vita um öll alvarleg eða ítrekuð brot og þau unnin í samvinnu við þá.  Í samræmi við ákvæði laga um stjórnsýslu er nemandanum og forráðamönnum tryggður andmælaréttur og viðurlög taki mið af jafnræðisreglu og meðalhófsreglu.

Reglur um eigin búnað, síma og snjallúr

  • Nemendur Snælandsskóla fá spjaldtölvu til notkunar í skólastarfinu.
  • Allur eigin búnaður nemenda er á þeirra ábyrgð og er skólinn ekki tryggður fyrir áföllum sem hann kann að verða fyrir.
  • Fyrirmæli kennara skipta öllu máli þegar kemur að notkun á snjalltækjum og eigin búnaði í skólanum. Nemendum ber undantekningalaust að fara eftir fyrirmælum kennara.
  • Nemendur gæti þess að sýna kennurum sínum og skólasystkinum virðingu og trufla ekki með símhringingum eða skilaboðum.
  • Notkun síma er óheimil í öllum prófum.
  • Snjallúr eiga ekki að sjást á skólatíma og er mælst til þess að þau séu skilin eftir heima.
  • Ekki má taka síma upp í kennslustund án leyfis kennara.
  • Öll upptaka í kennslustundum og spilun á ósiðlegu efni, klámi eða ofbeldi er að sjálfsögðu óheimil.

Reglur fyrir nemendur um umgengni við spjaldtölvur

  • Nemandinn ber ábyrgð á tækinu og notkun þess.
  • Aldrei skal skilja tækið eftir eftirlitslaust.
  • Tækið á að geyma á öruggum stað þegar það er ekki í notkun, t.d. á meðan nemendur eru í sundi.
  • Tækið á ávallt að vera í hulstrinu, það hlífir því fyrir hnjaski.
  • Matur og drykkjarílát eiga ekki samleið með tækinu.
  • Munið að hlaða tækið heima á nóttunni – gleymist það skal taka hleðslutækið með sér í skólann.

 

Nemendur mega ekki borða sælgæti og vera með gosdrykki inni í skólanum og á skólalóðinni, sama gildir um reykingar og rafrettur. Taka ber sælgæti sem nemendur koma með inn í skólann af þeim. Kennarar og annað starfsfólk er hvatt til að vera samtaka við að fylgja þessari reglu eftir.

 

 

 

Viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn

Ef nemandi mætir ekki á réttum tíma í skólann, hringir ritari heim eða til aðstandenda, athugar hvað veldur og skráir í Mentor. Viðbrögð við fjarvistum eru þau sömu á öllum skólastigum.

Í 19. gr. laga um grunnskóla frá 2008 stendur. „Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Foreldrar skólaskylds barns bera ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla.“

Leyfi og veikindi

Unnið er skv. Viðmiðum Kópavogsbæjar um viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn.

https://www.kopavogur.is/static/files/Menntasvid/Vidbrogd-vid-skolasokn-2020.pdf

Þegar grunur vaknar um skólasóknarvanda, þrátt fyrir tilkynntar fjarvistir, skal skoða tilkynningar um veikindi og leyfi síðustu þriggja skólamánaða eða lengra aftur ef langt er liðið á skólaárið (staðfest langtíma-veikindi eru hér frátalin). Ritari skólans sendir vikulega póst heim til foreldra. Skólinn getur óskað eftir viðeigandi vottorði sé nemandi veikur í meira en einn dag.

Fjarvistir

Unnið er skv. Viðmiðum Kópavogsbæjar um viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn.

https://www.kopavogur.is/static/files/Menntasvid/Vidbrogd-vid-skolasokn-2020.pdf

Þegar grunur vaknar um skólasóknarvanda, skal skoða ástundun nemandans síðustu þrjá skólamánuði, með sérstöku tilliti til dreifingar fjarvista.