Rýmingaráætlun

Hvert skal halda ef flýja þarf skólann?

Nemendur (og starfsfólk) skulu fara eins fumlaust og fljótt og kostur er á íþróttavöll norðan við skólann og safnast þar saman. Bekkir innan árganga skulu raða sér upp í einfaldar raðir í stafrófsröð framan við þar til gerð númer á girðingu (1-10) við suðurenda vallar, þannig að 1. bekkir raða sér upp fyrir framan tölustafinn 1 o.s.frv. Ef veðurfar er slæmt fara nemendur og starfsfólk í HK húsið, en eigi fyrr en manntal hefur farið fram og skólastjóri/staðgengill hefur skipað svo fyrir. Opnunarsími í HK húsi er: 570-4990

Þegar brunabjallan hringir

Leiðbeiningar fyrir kennara og nemendur

Þegar brunaviðvörunarkerfi fer í gang undirbýr kennari rýmingu kennslustofu sinnar. Þar er farið eftir ákveðnum leiðbeiningum sem er að finna í öllum kennslustofum. Fari viðvörunarkerfi í gang ber að rýma skólann þar til önnur tilkynning berst.

Kennari athugar hvort leið sé greið úr kennslustofu. Ef reykur er á gangi á efri hæð hússins þarf að bíða eftir aðstoð slökkviliðs. Bíða skal við glugga, björgunarop (koma skal þar fyrir veifu svo slökkvilið sjái að einhver er inni).

Nemendur nálgast skó á göngum og grípa með sér yfirhafnir ef hægt er.

Kennari gengur á undan nemendum sínum eftir fyrirfram skilgreindri útgönguleið. Kennari taki með sér plastvasa sem ávallt skal vera staðsettur við dyr kennslustofu (upplýsingar um nemendur s.s. nafnalistar, teikningar af útgönguleiðum, grænar og rauðar veifur). Hver kennari er ábyrgur fyrir þeim bekk/hópi sem hann er að kenna þegar hættuástand skapast.

Skólaliðar yfirfara sín svæði og kanna hvort nemendur leynist á  klósettum, undir stigum, á göngum eða í geymslum.

Nemendur gangi á eftir kennara sínum út á söfnunarsvæði skólans. Þetta skal gert fumlaust og ákveðið, ekki skal hlaupa né vera með óþarfa hávaða, slíkt gæti torveldað samskipti hópsins meðan á göngunni stendur. Grænni veifu er brugðið á loft ef allir nemendur bekkjar/hóps hafa skilað sér, annars rauðri. Nemendum er óheimilt að yfirgefa stað bekkjar á söfnunarsvæði nema með leyfi kennara.

Þegar nemendur eru komnir á söfnunarsvæði skólans mynda þeir röð hjá kennara sínum sem fer yfir nafnalista og aðgætir hvort allir nemendur hafi skilað sér. Upplýsingum um stöðu mála komið til skólastjóra/staðgengils. Ritari sér um að taka forfallabók og síma með sér á söfnunarsvæði.

Kennari tilkynnir stöðuna til skólastjóra/ umsjónarmanns söfnunarsvæðis.

Þeir kennarar, sem ekki hafa bekki í sinni umsjá, sem og annað starfsfólk aðstoðar við það sem þurfa þykir, að fengnum fyrirmælum frá skólastjóra/umsjónarmanni söfnunarsvæðis.

Ef um falsboð er að ræða er mjög mikilvægt að kennari noti tækifærið og ræði við nemendur um mikilvægi brunavarna og fari yfir rýmingaráætlunina með nemendum sínum. Sá aðili sem fer síðastur út úr hverri stofu skal loka öllum hurðum á eftir sér til að draga úr reykflæði um húsið og hindra útbreiðslu elds eins og hægt er.

Skólastjóri/staðgengill hans og húsvörður v/stjórnunar aðgerða

Ef brunakerfi fer í gang skal skólastjóri/staðgengill fara að stjórntöflu kerfis og kanna hvaðan brunaboð kemur. Slökkt er á brunaboði á meðan mál eru könnuð. Ef eldur er laus og raunveruleg hætta er á ferðum, þá eru brunabjöllur og vælur settar aftur í gang og skólinn rýmdur tafarlaust skv. áætlun.

Skólastjóri/staðgengill eða húsvörður hefur samband við 112 og gefur skýringar á brunaboðinu eins og hægt er, í hverju er kviknað og hvar.

Skólastjóri/staðgengill sér um að athuga hvort allt starfsfólk sé komið út á söfnunarsvæðið, ef einhvern vantar skal hann koma því til varðstjóra slökkviliðs og hvar viðkomandi sást síðast í byggingunni.

Skólastjóri/staðgengill fer á milli hópa/bekkja og kannar stöðu mála, hvort allir hafa skilað sér út eða hversu marga vantar.

Skólastjóri/staðgengill kemur upplýsingum til varðstjóra slökkviliðs.

Beðið skal eftir að varðstjóri slökkviliðs gefi leyfi til skólastjóra/staðgengils um hvort/hvenær hægt sé að fara inn í bygginguna aftur.

Hlekkur á Rýmingaáætlun Snælandsskóla

Rýmingaráætlun Snælandsskóla