Nemendaráð er skipað 7 eða fleirum fulltrúum á unglingastigi Snælandskóla. Hver árgangur hefur ávalt a.m.k. tvo fultrúa í ráðinu. Valið er í nemendaráð í Igló, félagsmiðstöðinni í Snælandsskóla.
Nemendaráð fundar u.þ.b. fjórum sinnum í mánuði, og stjórnar forstöðumaður Igló fundunum.
Meðal verkefna nemendaráðsins eru að skipuleggja og taka virkan þátt í félagsstarfi Igló og vera tengiliðir nemenda og félagsmiðstöðvar. Ráðið kýs sér formann og situr hann fyrir hönd Igló einnig í unglingaráði félagsmiðstöðva í Kópavogi. Fimm fulltrúar nemendaráðs sækja einnig Landsmót Samfés.
Nemendaráð er líka tengiliður nemenda og skóla, og sitja tveir fulltrúar ráðsins í skólaráði Snælandsskóla.
IGLÓ félagsmiðstöð unglinganna í Snælandsskóla
IGLÓ tók til starfa í kjallara skólans 3. október 1996. Igló kemur úr tungumáli inútíta á Grænlandi og merkir „snjóhús“.
IGLÓ er félagsmiðstöð rekin af ÍTK fyrir unglingadeildina í Snælandsskóla. Hún heldur uppi opnum húsum tvö kvöld í viku þar sem iðulega er skipulögð dagskrá eins og fræðsla, kynningar, hin ýmsu skemmtikvöld, bíósýningar, söngvakeppnir og margt margt fleira.
Í félagsmiðstöðinni er mikið unnið með hópa/klúbbastarf og svo nemendaráðið sem skipuleggur mikið af dagskránni og sér um starfsemina í samráði við starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar. Þannig er reynt að virkja krakkana til að taka virkan þátt í sínu félagsstarfi og er það einnig rauður þráður í starfi Igló. Starfsfólkið hvetur unglingana til þess að framkvæma sínar hugmyndir og geta þeir alltaf fengið hjálp og leiðsögn hjá starfsfólki Igló. Í Igló hafa krakkarnir fastan samanstað í þægilegu umhverfi þar sem boðið er upp á fjölbreytta dagskrá. Öll starfsemi Igló er vímuefnalaus og skipa forvarnir stóran sess í félagsmiðstöðvastarfi.
Heimasíða félagsmiðstöðva Kópavogs: http://felagsmidstodvar.kopavogur.is/ (Opnast í nýjum vafraglugga)
Opnunartímar IGLÓ
Alla virka daga er opið í hádegishléi Snælandsskóla.
Síðdegisopnanir eru frá mánudegi til fimmtudags frá kl 14:00-16:00.
Kvöldopnanir:
Mánudaga kl. 17:00-18:30 og 19:30-22:00
Miðvikudaga kl. 17:00-18:30 og 19:30-22:00
Annan hvern föstudag kl. 20:00-23:00Á þessum tíma fer fram klúbbastarf, fræðslustarf og annað skipulagt starf.
Sigurður Pálmarsson forstöðumaður
Markmið félagsmiðstöðva ÍTK:
1. Félagsmiðstöðvar ÍTK skulu vera öruggur samastaður fyrir unglinga þar sem stuðlað er að jákvæðum félagsþroska og samskiptum.
2. Félagsmiðstöðvar ÍTK skulu standa öllum ungmennum opnar sem áhuga hafa á að taka þátt í starfsemi þeirra.
3. Félagsmiðstöðvar ÍTK skulu leitast við að hafa sem hæfasta starfsfólk á sínu sviði og viðhalda hæfni þess.
4. Félagsmiðstöðvar ÍTK skulu starfa eftir lýðræðislegum stjórnarháttum þar sem unglingum er kennt að taka ákvarðanir, framkvæma og bera ábyrgð.
5. Félagsmiðstöðvar ÍTK skulu vinna að forvarnarstarfi með aðaláherslu á forvarnir gegn vímuefnum.
6. Félagsmiðstöðvar skulu hafa sem best samstarf við foreldra, starfsfólk skóla og aðra þá sem sinna barna- og unglingamálum í hverfinu.
7. Félagsmiðstöðvar ÍTK skulu veita fræðslu um líf og tilveru unglinga og við að mæta þörfum samfélagsins hverju sinni.