Eineltisáætlun

Snælandsskóli er Olweusarskóli

Í Snælandsskóla hefur verið unnið eftir áætlun Olweusar gegn einelti frá árinu 2002. Skilgreining Olweusar á einelti er þegar einstaklingur verður aftur og aftur fyrir neikvæðu og óþægilegu áreiti eins eða fleiri og á erfitt með að verja sig. Einelti getur verið beint einelti og óbeint einelti. Með beinu einelti er átt við einelti með höggum, spörkum, blótsyrðum, niðurlægjandi og háðslegum athugasemdum. Með óbeinu einelti er átt við að maður verði útilokaður frá félagahópnum, verði fyrir illu umtali eða að aðrir komi í veg fyrir að maður eignist vini. Einnig er rafrænt einelti hluti af óbeinu einelti.

Olweusaráætlunin byggist á ákveðnum meginreglum sem miða að því að bæta það félagslega umhverfi sem er í skólanum og skapa jákvætt skólaumhverfi sem einkennist af:

  • Hlýlegum og jákvæðum áhuga og alúð hinna fullorðnu
  • Ákveðnum römmum vegna óviðunandi atferlis
  • Stefnufastri beitingu neikvæðra afleiðinga (refsinga) sem hvorki eru líkamlegar né óvinveittar, brjóti nemandinn gegn þeim reglum sem ákveðnar hafa verið
  • Fullorðnum í skóla (og á heimili) sem virka sem yfirboðarar við vissar aðstæður

Megininntak Olweusaráætlunarinnar er fræðsla. Allt starfsfólk skólans fær reglulega fræðslu um hvað einelti er og hvernig bregðast skuli við ef upp kemur einelti. Árlega er lögð fyrir könnun á stöðu eineltis í skólanum og eru niðurstöður kynntar fyrir starfsfólki, foreldrum og nemendum. Nemendur frá fræðslu um hvað felst í hugtakinu einelti og afleiðingar þess. Bekkjarfundir eru haldir reglulega þar sem meðal annars er rætt um samskipti og einelti. Bekkjarfundir eru hugsaðir til að styrkja bekkjarbraginn og efla samkennd meðal nemenda.

Við leggjum áherslu á að nemendur og foreldrar treysti sér í að leita til starfsmanna skólans ef grunur leikur á að einelti eigi sér stað. Olweusarverkefnið hefur gefið út handbók fyrir foreldra þar sem er að finna upplýsingar um hvað sé einelti og hvernig bregðast skuli við því. Þeir foreldrar sem ekki eiga slíka handbók geta nálgast hana á skrifstofu skólans eða skoðað hana hérna: https://olweus.is/wp-content/uploads/2013/11/Einelti.pdf.

Eineltisteymi Snælandsskóla skólaárið 2023-2024:

Kallý Jónsdóttir, námsráðgjafi

Rannveig Haraldsdóttir

Rakel Heimisdóttir

Júlía Ágústsdóttir

Meðferð eineltismála

1. stig – tilkynning.

Tilkynning getur borist frá nemanda, foreldri eða starfsmanni skólans. Um leið og tilkynning berst fær eineltisteymið hana í hendur og umsjónarkennari fer í að kanna málið.

2.stig – könnun.

Umsjónarkennari ræðir við þolanda, meinta gerendur, leitar upplýsinga hjá starfsfólki og öðrum nemendum og ræðir við foreldra ef tilefni þykir til.

3.stig – staðfestur grunur.

Ef grunur er staðfestur þá eru allir sem umgangast barnið virkjaðir og uppfræddir.

4.stig – alvarlegri viðtöl.

Ef eineltið stoppar ekki þrátt fyrir viðtöl, fræðslu og eftirlit eru alvarlegri viðtöl tekin við alla sem hlut eiga að máli. Ráðstafanir gerðar með foreldrum allra hlutaðeigandi.

5.stig – vísað til nemendaverndarráðs.

Ef eineltið hættir ekki þá er málinu vísað til nemendaverndarráðs.